Akstursmat

Afhverju akstursmat?

Eftir að ökunemandinn hefur staðist skriflegt og verklegt próf fær hann í hendurnar bráðabirgðarskírteini sem gildir í þrjú ár frá útgáfu þess. Eftir það verður nemandinn að sækja um fullnaðarskírteini.

Það er undantekning á þeirri reglu, nemandinn getur sótt um fullnaðarskírteini að ári liðnu frá útgáfu bráðabirgðarskírteinis ef hann er punktalaus í ökuferilsskránni sinni.

Hvernig er ferlið?

Áður er fullnaðarskírteini er gefið út þarf ökumaður að óska eftir akstursmati hjá ökukennara. Ökumaður getur tekið akstursmat á kennslubifreið ökukennara eða sinni eigin bifreið.

Hvað er akstursmat?

Í akstursmati er kannað hvort mat ökumanns á eigin aksturshæfni, akstursháttum og öryggi í umferðinni sé í samræmi við raunverulega getu hans. Markmið akstursmats er að ökumaðurinn geri sér grein fyrir hæfni sinni og getu í umferðinni með tilliti til umferðaröryggis.

Hvernig fer akstursmat fram?

  • Mat á eigin aksturshæfni og öryggi í umferð.

  • Akstur með ökukennara. Ökukennarinn ákveður hluta akstursleiðarinnar og hluta ákveður ökumaðurinn.

  • Ökumaður leggur mat á eigin akstur, hvað hefði betur mátt fara og hvað gekk vel.

  • Ökukennarinn veitir endurgjöf.

Gert er ráð fyrir að akstursmat taki 50 mínútur, þ.e. 30 mínútna akstur og 15 mínútna úrvinnsla og niðurstaða þar sem ökumaður og ökukennarinn ræða hvernig bæta megi öryggi ökumannsins.

Niðurstaða akstursmats?

Að akstursmati loknu getur ökukennarinn staðfest framkvæmdina með rafrænum hætti.

Ekki er hægt að falla í akstursmati.

Þegar ökukennarinn hefur staðfest akstursmat getur ökumaður sótt um fullnaðarskírteini.